Læknar sem starfa hjá íslenska ríkinu eru í verkfalli í fyrsta skipti í sögunni. Kjarasamningar þeirra hafa verið í samræmi við aðra samninga ríkisins. Eftir niðurskurð í kerfinu frá aldamótum er komið að þolmörkum. Ef við tökum Landspítalann sem dæmi þá hefur rekstrarfé hans dregist saman um 20% frá árinu 2008 þrátt fyrir að álag á sjúkrahúsið hafi aukist á tímabilinu vegna fjölgunar aldraðra. Sérgreinalæknar sem eru með eigin rekstur deila ekki þessum kjörum. Þau gerðu samning við heilbrigðisráðherra í byrjun árs. Samkvæmt þeim samningi hækkar svokallað einingaverð tvisvar á ári til samræmis við launa- og neysluverðsvísitölu auk þess sem heildareiningafjöldi samningsins er endurskoðaður ár hvert með tilliti til breytinga á fólksfjölda. Það þýðir að eftir því sem hlutfallsleg öldrun þjóðarinnar eykst, stækkar samningurinn.

Við hrun tóku íbúar landsins á sig mikla kjaraskerðingu. Lífskjör okkar drógust aftur úr kjörum nágrannaþjóðanna. Mikil eftirspurn er eftir heilbrigðisstarfsfólki í heiminum og það er því freistandi fyrir lækna og hjúkrunarfræðinga að sækja vinnu út fyrir landsteinana og æ færri læknar flytja heim aftur að sérgreinanámi loknu. Meðalaldur lækna á Íslandi fer því hækkandi, vinnuálag á heilbrigðisstofnunum hefur aukist, tækjabúnaður hins opinbera er að úreldast, svigrúm til kaupa á nýjustu og bestu lyfjum er sáralítið og þátttaka í rannsóknum til eflingar læknavísindunum verður sífellt erfiðari.

Í gögnum frá velferðarráðuneytinu koma fram áhyggjur af stöðugri aukningu á komum til sérgreinalækna með hættu á ofnotkun á þeirri þjónustu. Við erum því ekki að nota útgjöld til heilbrigðismála með nógu skilvirkum hætti því á Íslandi búum við í raun við tvöfalt heilbrigðiskerfi. Rétt eftir að læknar hófu verkfall bárust okkur einmitt nöturlegar fréttir af áformum um risastóra einkarekna læknamiðstöð með aðgengi fyrir sjúkrabíla.

Íslendingar vilja að heilbrigðisþjónustan sé í hæsta gæðaflokki og fyrst og fremst rekin af hinu opinbera. Við viljum ekki einkasjúkrahús. Við þurfum meira fé í opinbera heilbrigðiskerfið strax – annars verður ekki aftur snúið!

 

Fyrst birt á visir.is

http://www.visir.is/vid-viljum-ekki-einkasjukrahus!/article/2014710319929