Um mig

Ég er fjögurra barna móðir og hagfræðingur

Ég er gift Birgi Hermannssyni stjórnmálafræðingi og við eigum fjögur börn á aldrinum 10-24 ára. Mér þykir vænt um fólk, er lífsglöð og svo heppin að eiga góða fjölskyldu og vini. Mamma, Sigþrúður Steffensen, er Reykvíkingur í húð og hár og pabbi minn, Ingi R. Jóhannsson, var Vestmanneyingur. Þau ólu mig upp við gott atlæti á Seltjarnarnesi og kenndu mér að standa með sjálfri mér og að setja mig í spor annarra.

Ég er femínisti og fékk brennandi áhuga á samfélagsmálum þegar ég gekk til liðs við Kvennalistann 23 ára gömul. Ég varð jafnaðarmaður þegar ég bjó í Svíþjóð en þar bjuggum við fjölskyldan á árunum 1996 til 2002. Þegar heim kom byrjaði ég að starfa með Samfylkingunni og öllu því frábæra fólki sem vill bæta samfélagið. Ég hef setið sjö ár á þingi fyrir Samfylkinguna og er óendanlega þakklát félögum mínum og kjósendum fyrir að hafa veitt mér það tækifæri. Á þingi hef ég lagt mig fram um að vera trú flokknum og vinna í þágu almennings.

Áður en ég tók sæti á þingi vann ég í félags- og tryggingamálaráðuneytinu og þar áður hjá Alþýðusambandi Íslands. Menntun mín í sagnfræði og viðskipta- og hagfræði auk starfsreynslunnar hefur nýst vel í störfum mínum á þingi, ekki síst í velferðarnefnd og fjárlaganefnd.

Áhugamálin eru pólitík, lestur, leikhús, handavinna og ferðalög. Skemmtilegast finnst mér að tjalda með fjölskyldunni og svo auðvitað að ferðast til útlanda.

Sigríður Ingibjörg Ingadóttir