Mín stefnumál

Jöfnuður – frelsi – umburðarlyndi

Mín sýn

Mín sýn

Hugsjón mín er að minnka áhyggjur og kvíða sem allra flestra. Kannski er þetta sameiginlegt markmið allra sem eru í stjórnmálum af hugsjón en það er alla vega ljóst að þetta er ekki ofarlega í huga stjórnarflokkanna þessa dagana.

Vellíðan og hamingja felast í því að hafa ekki áhyggjur af grunnþörfum - mat og húsnæði, fötum á börnin sín og bókum í skólann. Þess vegna er svo brýnt að leysa húsnæðisvanda unga fólksins, hækka lægstu laun, verja námslán og tryggja öllum mannsæmandi framfærslu. En vellíðan og hamingja felast líka í frelsi og tækifærum til að uppfylla drauma sína, mennta sig og ráða eigin lífi. Og ráða við eigið líf - ég er til dæmis stolt af því að tillaga mín um geðheilbrigðisstefnu var samþykkt og sálfræðingum í heilsugæslunni fjölgað. Næst þarf að samþykkja málið mitt um gjaldfrjálsa sálfræðiþjónustu í framhaldskólum því lífið væri svo miklu betra ef allir sem vildu fara til sálfræðings hefðu efni á því.

Hér er að finna mína sýn á nokkur af helstu baráttumálum okkar jafnaðarmanna.

Öll sanngirnismál eru velferðarmál

Öll sanngirnismál eru velferðarmál

Velferðarmálin hafa átt hug minn þau sjö ár sem ég hef setið á Alþingi. Ég var einu sinni formaður fjárlaganefndar en síðustu fjögur ár hef ég verið formaður velferðarnefndar Alþingis, bæði sem stjórnar- og stjórnarandstöðuþingmaður.

Í nýrri og betri ríkisstjórn bíða velferðarráðherra mikilvæg og krefjandi verkefni:

 • Hætta krónu á móti krónu skerðingum í almannatryggingum og hækka greiðslurnar.
 • Bæta geðheilbrigðisþjónustu við börn og unglinga.
 • Hækka greiðslur í fæðingarorlofi eftir þriggja ára frystingu og lengja það í 12 mánuði.
 • Fullgilda samning Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks. Drátturinn á þeirri vinnu er okkur til skammar.
 • Byggja fleiri hjúkrunarrými og bæta þjónustu við aldraða.

Öll sanngirnismál eru velferðarmál – fullburða og gjaldfrjálst heilbrigðiskerfi, skólakerfi sem ræktar það besta í nýjum kynslóðum, jafnrétti, mannréttindi, húsnæði, matur og áhyggjulaust líf. Stefna mín í einstökum málaflokkum er stefna um velferð fyrir alla.

Unga fólkið

Unga fólkið

Við erum komin út úr hruninu og margir hafa fært stórar fórnir til að forða ríkissjóði frá gjaldþroti. Nú er kominn tími til að byggja upp og fjárfesta í þágu almennings í landinu. Þetta á ekki síst við um unga fólkið: Við verðum að gera nýjum kynslóðum kleift að byggja upp gott og áhyggjulaust líf á Íslandi. Við verðum að efla skólana, við verðum að byggja miklu fleiri leiguíbúðir, við verðum að auka stuðning við listgreinar og fjárfesta í atvinnugreinum sem skapa skemmtileg og verðmæt störf.

 • Fjölgum leiguíbúðum í nýja almenna íbúðakerfinu fyrir ungt fólk og tekjulága úr 2.000 í 5.000 á næstu fimm árum.
 • Verjum LÍN og gerum raunverulegar umbætur. Ég vil sjá námsstyrki en ekki vaxtaokur, virðingu fyrir lengra námi og ég vil sjá lánasjóð sem ber raunverulegan hag námsmanna fyrir brjósti.
 • Hækkum barnabætur svo fólk þurfi ekki að hætta að fara í sumarfrí þó það eiginist börn.
Klárum uppbyggingu Landspítala við Hringbraut

Klárum uppbyggingu Landspítala við Hringbraut

Dráttur á fjárfestingum Íslendinga í þjóðarsjúkrahúsi undanfarna áratugi eru til skammar. Endalausar úrtölur af margvíslegum hvötum hafa tafið uppbyggingu nútímalegs sjúkrahúss fyrir alla landsmenn. Við verðum að binda endi á þessa vitleysu og hraða uppbyggingu Landspítalans eins og kostur er. Það er langskynsamlegasta leiðin til að auka gæði heilbrigðisþjónustunnar, halda í okkar hæfasta fólk og eignast spítala sem getur keppt við þá bestu.

 • Klárum uppbyggingu Landspítala við Hringbraut.
 • Aukum fé til heilbrigðisþjónustu á öllu landinu og tökum alvöru skref í átt til gjaldfrjálsrar heilbrigðisþjónustu.
 • Bætum heilbrigðisþjónustu barna og ungmenna, líka tannréttingar, geðvernd og sálfræðiþjónustu.
Komum vel fram við fólk

Komum vel fram við fólk

Við eigum að vera óhrædd við átök um grundvallarmál og vinna með samherjum okkar að því að færa lýðveldinu nýja stjórnarskrá. Við höfum fólkið með okkur og enginn málstaður er betri eða mikilvægari. Jöfnum atkvæðisrétt, tryggjum arð almennings af auðlindum og aðkomu þjóðarinnar að lykilákvörðunum um framtíð hennar.

 • Samþykkjum nýja stjórnarskrá á grunni tillagna Stjórnlagaráðs, jafnvel þó það kosti þingrof og nýjar kosningar.
 • Sýnum að við erum umburðarlynd og upplýst þjóð og tökum á móti miklu fleiri flóttamönnum til samræmis við íbúafjölda og efnahag landsins.
 • Aukum gagnsæi í stjórnsýslunni og tökum markviss skref til að loka leiðum ráðabruggs og leynimakks með almannafé og almannahag.
 • Komum fram við fíkla og fanga eins og manneskjur.
Tryggjum þjóðinni arð af sinni helstu auðlind

Tryggjum þjóðinni arð af sinni helstu auðlind

Átök síðustu ára endurspegla hatramma hagsmunabaráttu þar sem venjulegt fólk hefur þurft að bjóða fjármagnseigendum byrginn. Valdahlutföllin eru hróplega ósanngjörn en með samstöðu og úthaldi mun okkur takast að skapa eitt samfélag fyrir alla.

Stefna Samfylkingarinnar í auðlindamálum er skýr. Við viljum afskrifa kvótann og innleiða uppboðsleið. Þetta er eina leiðin til að tryggja eðlilegan arð þjóðarinnar af sinni helstu auðlind. Við styðjum hófstillta og ábyrga nýtingu raforku. Og við teljum mikilvægt að tekjur sveitarfélaga af auknum straumi ferðamanna skili sér og standi undir skynsamlegri uppbyggingu þessarar mikilvægu atvinnugreinar.

 • Tryggjum eðlilegt afgjald af fiskveiðiheimildum með því að setja allan kvóta á markað eins hratt og mögulegt er.
 • Verjum rammaáætlun og seljum raforkuna aldrei á undirverði.
 • Virðisaukaskattur á ferðaþjónustu á að vera sá sami og lagður er á aðrar atvinnugreinar.
 • Veitum heimild til að innheimta gistináttagjald sem rennur óskert til viðkomandi sveitarfélags.
 • Vinnum að víðtækri innleiðingu jafnlaunastaðals og jafnlaunavottunar.
Jöfn tækifæri til náms fyrir alla

Jöfn tækifæri til náms fyrir alla

Sitjandi ríkisstjórn hefur unnið gegn jafnrétti til náms og reynt af veikum mætti að innleiða allskyns nýjungar sem hafa fyrir löngu verið reyndar annars staðar og verið hafnað. Menntir og menning eru undirstaða þess að gera Ísland að lífvænlegu landi, fremur en verstöð á hjara veraldar.

 • Tryggjum jöfn tækifæri til náms á öllum skólastigum.
 • Aukum framlög til Háskóla og styðum við rannsóknir og alþjóðasamstarf.
 • Aukum stuðning til menningarmála verulega, með það markmið að þau verði sambærileg við framlög Evrópuþjóða.
 • Berjumst gegn því viðhorfi að menning sé tímaeyðsla eða leti. Listir og snilld eru eitt það allra mikilvægasta í lífinu.