Nú stefnir í harðari kjaradeilur en áratugum saman. Margar ástæður eru fyrir þessu. HB Grandi gaf tóninn með því að gefa verkakonum íspinna á sama tíma og eigendum voru greiddir milljarðar í arð og sjórnarlaun hækkuð. Hér er því deilt um eðlilega skiptingu á góðri afkomu fyrirtækja milli launafólks og eigenda. Allir sjá að það er með öllu óeðlilegt að fyrirtæki sem skila góðum hagnaði komist upp með að greiða laun sem ekki nægja til framfærslu. Héldu stjórnendur að þeir kæmust upp með að greiða of lág laun með því að höfða til ábyrgðarkenndar launafólks?

Aukin misskipting

Í öðru lagi er vaxandi óánægja með aukna misskiptingu. Ríkisstjórnin hefur sett olíu á eldinn með aðgerðum sínum: Hækkun á matarskatti, lækkun á veiðigjaldi og afnámi auðlegðarskatts, meðan ekki er hægt að koma til móts við leigjendur og barnafjölskyldur. Höfuðstólslækkunin kom mörgum til góða, en óumdeilt er að þeir tekjuhærri komu betur út en þeir tekjulægri. Heilbrigðismálum er haldið í fjárhagslegri spennitreyju og endurteknum verkföllum á meðan markrílinn er afhentur útvöldum. Bráðavandi í húsnæðismálum er af ríkissjórninni álitinn sérmál eins ráðherra, meðan forsætisráðherra dreymir stórmennskudrauma um byggingar eftir gömlum teikningum. Það þarf ekki að koma á óvart að einungis 5% landsmanna telja forsætis- og fjármálaráðherra í tengslum við almenning.

Í þriðja lagi telja margir að þeir eigi inni leiðréttingu á launum eftir erfið ár og niðurskurð. Þetta á sérstaklega við um ríkisstarfsmenn sem setið hafa eftir í launakjörum. Þessum kröfum þarf að mæta af sanngirni og sveigjanleika, meðal annars með auknu fé til stofnanasamninga hjá ríkinu og sérstökum framlögum til fjársveltra stofnana.

Traustið horfið

Ekki bætir úr skák að traust aðila vinnumarkaðarins á ríkisstjórninni er horfið. Ráðherrar standa ekki við orð sín, tala út og suður og í fjárlögum var réttindum launafólks breytt einhliða án þess að tala við verkalýðshreyfinguna.

Samtök atvinnurekenda og ríkisstjórnarinnar vilja setja ábyrgðina á efnahagsmálum þjóðarinnar á herðar launafólks. Svo er ekki, hún er á verksviði ríkisstjórnarinnar. Kröfurnar um að menntun verði metin til launa og 300.000 króna lágmarkslaun eru sanngjarnar og við í Samfylkingunni styðjum þær heilshugar.

Sýnum samtakamátt okkar 1. maí. Sjáumst í göngunni!

Fyrst birt í Reykjavík vikublað

Sameinumst um félagslegt réttlæti