Forseti Íslands skrifaði undir veiðigjaldalögin, þrátt fyrir 35 þúsund undirskriftir um að gera það ekki. Það er að sjálfsögðu hans ákvörðun og hann ber ábyrgð á henni gagnvart þjóðinni.

Það sem vakti athygli mína voru ýmis rök forsetans fyrir því að skrifa undir. Þannig vísaði hann til þess að lítið málþóf hefði verið í þinginu um málið og hafði á orði að stemningin í samfélaginu væri mun rólegri en þegar fjölmiðlalögin voru til umræðu á sínum tíma.

Það er nokkuð til í þessu. Þingmenn stjórnarandstöðunnar lögðust ekki í málþóf út af veiðigjöldunum þó andstöðu þeirra væri komið á framfæri með skýrum hætti. Undirskriftasöfnunin var að frumkvæði tveggja einstaklinga sem misbauð frumvarp sjávarútvegsráðherra. Skipulögð félög eða hópar komu þar hvergi nærri.

Sjávarútvegsmál hafa verið til umræðu um langt árabil og almenningur hefur upplýsta skoðun á deilumálum um þau. Þetta á ekki síst við um þjóðareign á auðlindinni og að gjald skuli koma fyrir afnot á henni.

Mikil andstaða við frumvarp sjávarútvegsráðherra byggist á réttlætiskennd, enda misbýður fólki að útgerðinni í landinu skuli réttir um 10 milljarðar á meðan frekari niðurskurður ríkisútgjalda er boðaður. Þó engir væru útifundirnir eða blysfarir á Bessastaði skyldi enginn vanmeta þann kraft sem býr í réttlætiskennd almennings.

Einar Kristinn Guðfinnsson, nýkjörinn forseti Alþingis, hefur varla verið mjög ánægður með ummæli forseta Íslands. Tafir voru engar á afgreiðslu veiðigjaldafrumvarpsins og málið klárað með eðlilegum hætti. Ef marka má rök forsetans þá voru þetta mikil mistök af hálfu stjórnarandstöðunnar. 35 þúsund undirskriftir, 70% andstaða í skoðanakönnun og málefnaleg umræða á Alþingi er greinilega ekki nóg. Forsetinn saknaði málþófsins!

Forsætisráðherra kvartaði á dögunum undan loftárásum stjórnarandstöðunnar. Meintar loftárásir voru þó ekki annað en eðlileg gagnrýni Alþingis á frumvörp og tillögur ráðherra ríkisstjórnarinnar. Ef marka má ummæli forseta Íslands þótti honum lítið til þessara loftárása koma. Ekki einu sinni málþóf í þriðju umræðu um veiðigjaldafrumvarpið!

Fyrst birt á Vísi.is.