Anna og Pétur eru ung hjón sem eiga tvö börn, 4 og 6 ára. Þau eru verkafólk, bæði fullvinnandi og með um 760.000 kr. í laun á mánuði. Þau eru sem sagt með meðallaun verkafólks. Þau  leigja íbúð á 180.000 kr. á mánuði og reka einn bíl. Hver eru kjör þessarar fjölskyldu?

Eiga ekki fyrir útgjöldunum

Ráðstöfunartekjur þeirra á mánuði eru  567.880 kr.  Þær skiptast þannig: Útborguð laun 553.600 kr., barnabætur 13.800 kr. og húsaleigubætur 480 kr. Þau lifa mjög sparlega og hefur tekist að halda sig við grunnviðmið neyslu samkvæmt reiknivél velferðarráðuneytisins en reka bíl svo útgjöld á mánuði eru um 400.000 kr. Þá á eftir að gera ráð fyrir leigunni sem er 180.000 kr. Þau eru því í 16.000 kr. mínus um hver mánaðarmót!

Vaxandi áhyggjur

Þau finna fyrir hækkandi matarverði og skilja ekki hvers vegna matarskatturinn var hækkaður. Hvorki barnabætur né húsaleigubætur hafa hækkað. Þau missa íbúðina í lok sumars og verða því að finna sér nýja. Þau vilja vera áfram í hverfinu því eldra barnið er byrjað í skóla. Leiguverð fer stöðugt hækkandi og því er líklegt að næsta íbúð verði dýrari. Húsaleiga er verðtryggð en var ekki talin þess verð að fá leiðréttingu eins og lánin. Önnu og Pétri finnst þetta óréttlátt, ekki síst þegar þau hugsa um þær  skitnu 480 kr. sem þau fá í húsaleigubætur á mánuði. Þau myndu vilja nýta sér tækifærið og spara fyrir húsnæði með séreignarsparnaðinum en þau hafa ekki ráð á því auk þess sem það virkar eitthvað svo vonlaust að ná að safna fyrir útborgun í íbúð. Fyrir þau væri best að fá langtímaleigusamning með hagstæðri leigu en það er því miður fjarlægur draumur.

Kjarabætur!

Dæmið af Önnu og Pétri er um fólk með meðallaun verkafólks. Margir hafa því augljóslega lægri tekjur en þau og eiga því erfiðara með að ná endum saman. Kröfugerð verkalýðsfélaganna tekur mið af þessum veruleika, enda augljós þörf fyrir verulegar kjarbætur. Best væri að semja til lengri tíma um markvissar kjarbætur. Á því eru þó litlar líkur. Viðhorf Samtaka atvinnulífsins koma ekki á óvart, en mesta óvissan er þó um ríkisstjórnina. Síðustu fjárlög virtust beinlínis samin í þeim tilgangi að skapa deilur og gera samninga erfiðari.

Ríka fólkið í forgang. Launafólkið bíður!

Þegar ríkisstjórn Sigmundar Davíðs var mynduð vorið 2013 átti að setja heimilin í forgang. Raunin hefur verið allt önnur. Með nánast einu pennastriki voru veiðigjöldin lækkuð á útgerðina, hætt við hækkun á virðisaukaskatt á gistingu og ákveðið var að framlengja ekki álagningu auðlegðarskatts. Það þurfti engar nefndir til að skoða málin og fjármálaráðherra og Seðlabankastjóri höfðu engar áhyggjur af efnahagsáhrifum þessara aðgerða.

Um hagsmunamál heimilanna þurfti hins vegar nefndir: fæðingarorlof, húsaleigubætur, barnabætur, húsnæðismál, almannatryggingar, námslán, verðtrygging. Engar umbætur hafa litið dagsins ljós, engin frumvörp komið fram. Við vitum að stærsta hindrunin er viljaleysi ríkisstjórnarinnar til að forgangsraða fjármunum ríkisins í þágu launafólks. Biðin eftir frumvörpunum getur því orðið ansi löng.

Kjarasamningarnir framundan

Ríkisstjórnin hlýtur að gera sér grein fyrir því að án ríflegra kjarabóta stefnir í átök á vinnumarkaði. Viðbrögð forsæisráðherra eru eins og vanalega að telja Ísland best í heimi og kaupmátt meiri en nokkru sinni í sögu þjóðarinnar. Skrítið að fólk eins og Anna og Pétur séu ekki alveg að tengja við boðskap ráðherrans!

Hvað ætlar ríkisstjórnin að gera til að skapa sátt í samafélaginu og liðka fyrir kjarasamningum? Fleirri nefndir leysa engan vanda! Samfylkingin mun styðja launafólk í kröfunni um nýtt húsnæðisbótakerfi, stofnstyrki til leigufélaga  án arðsemiskröfu og barnabætur til allra barna. Röðin er löngu komin að launafólki.

 

Sigríður Ingibjörg Ingadóttir

þingkona Samfylkingarinnar