Í aðdraganda og kjölfar hruns bankanna, hrundi íslenska krónan. Það var svo sem ekki í fyrsta skipti enda á blessuð krónan sér mjög sveiflukennda sögu. Sveiflur á verðgildi íslensku krónunnar gagnvart erlendum gjaldmiðli viðskiptalanda okkar hafa valdið óhóflegri verðbólgu hér á landi. Á 8. áratugnum var árleg verðbólga um 35 prósent sem leiddi til þess að árið 1979 voru sett lög um verðtryggingu af ríkisstjórn undir forystu Framsóknarflokksins. Óðaverðbólga át upp sparifé og olli miklum skorti á lánsfé.

Með verðtryggingunni breyttust aðstæður, auðveldara varð að fá lán og hægt var að hefja uppbyggingu lífeyrissjóða. Á 9. áratugnum náði verðbólga nýjum hæðum og árlegt meðaltal þann áratuginn var um 48%. Eftir árið 1990 hefur verðbólga að jafnaði verið mun minni hér á landi þó hún hafi verið mun hærri en í nágrannalöndum okkar. Ef við lítum t.d. til Danmerkur, Finnlands og Írlands þá er vart hægt að bera saman verðlagsþróun þessara þriggja landa við Ísland. Á sl. 30 árum hefur verðlag tvöfaldast í þessum ríkjum en tólffaldast á Íslandi. Já – þið lásuð rétt!

Þrálát verðbólgusaga hefur áhrif á lánskjör. Þó verðtryggingin hafi valdið mörgum lántakendum búsifjum á síðustu árum þá er hún ekki rót vandans. Núverandi og fyrrverandi ríkisstjórnir hafa sýnt viðleitni til að bæta lántakendum verðtryggðra lána upp kostnað síðustu ára en sú viðleitni dugir skammt. Verðbólga næstu ára mun verða fljót að hækka höfuðstól lánanna aftur. Fleiri velja nú þá leið að taka óverðtryggð lán til að verja sig gegn höfuðstólshækkunum sem verðtryggingin veldur í mikilli verðbólgu. Í staðinn verður greiðslubyrðin þyngri og sveiflur í afborgunum meiri við vaxtabreytingar.

Forsætisráðherra langar til að slá heimsmet. Honum hefur enn ekki tekist það. En það er ein leið fær í þeim efnum. Hún er sú að taka upp annan gjaldmiðil, evruna sem er gjaldmiðill okkar helstu viðskiptalanda. Með því móti gæti hann lækkað greiðslubyrði húsnæðislána varanlega um rúm 30 prósent!

 

Hver vill slá heimsmet?