Ágætu fundargestir.  

Takk fyrir að bjóða mér að vera hér í dag.

Það dapurlegt að fundur um fagmönnun framtíðar á heilbrigðisstofnunum fari fram í skugga læknaverkfalls.  Verkfalls sem er það fyrsta í sögunni hér á landi. Ég harma að ekki hafi tekist að koma í veg fyrir að kjaradeilan leiddi til verkfalls og vona að deilan leysist fljótlega þó fréttaflutningur gefi það ekki til kynna.

Þessi deila á auðvitað rætur sínar að rekja til langvarandi niðurskurðar í heilbrigðiskerfinu sem var hafin löngu fyrir hrun.  Rekstrarfé til Landspítala er nú mun minna en árið 2008 en álagið meira og eins gefur að skilja að það reynir á starfsfólkið.

Niðurskurður síðustu ára hefur tekið á á öllum heilbrigðisstofnunum landins, ég þarf ekkert að segja ykkur um það. Niðurskurðurinn hefur leitt til lakari kjara starfsfólks, meira álags og haft áhrif á þjónstuna. Þá leiðir langvarandi samdráttarástand til vonleysis og þreytu sem kemur að sjálfsögðu niður á starfsgleði.

En hvaða þættir munu hafa áhrif á vilja fólks til að skipa sér í raðir heilbrigðisstarfsmanna?

Ég er ekki sérfræðingur í þessum málum. Ég tala hér sem formaður velferðarnefnar Alþingis og orð mín hér í dag endurspegla þá reynslu sem ég hef öðlast af störfum mínum í þeirri nefnd. Við fjöllum um marga málaflokka,   sjúkra- og lífeyristryggingar, félagsþjónustu, málefni barna, málefni aldraðra og málefni fatlaðra, húsnæðismál, vinnumarkaðsmál og heilbrigðisþjónustu. Þið verðið að virða mér það til vorkunnar að við höfum eftir atvikum takmarkað svigrúm til að sökkva okkur í einstaka málaflokka.

Ég ætla að fara yfir þá helstu þætti sem ég helda að skipti máli fyrir starfsfólk heilbrigðisstofnana til lengri tíma litið.

Fyrst vil ég nefnda að endurnýjun á húsakosti Landspítalans mun hafa mikil áhrif á möguleika okkar til að halda í og fá til landsins sérhæft heilbrigðisstarfsfólk. Fyrir stærstu heilbrigðisstofnun landsins er þetta lykilatriði til að bæta aðbúnað og þjónustu við sjúklinga, starfsaðstæður starfsfólks og færa tæknistig sjúkrahússins til nútímahorfs.

Landspítalinn er hjarta heilbrigðiskerfisins í þeim skilningi að sérfræðingar þar eru hryggjarstykki í stuðningi við alla aðra heilbrigðisþjónustu í landinu. Áframhaldandi veiking á þeirri meginstofnun kemur því niður á öllum heilbrigðisstofnunum til lengri tíma litið. Ef stjórnvöldum ber gæfa til að hefja uppbyggingu Landspítala að nýju gefur það heilbrigðisstarfsfólki skýr skilaboð um að heilbrigðiskerfið sé í rauninni í forgangi og eftirsóknarverður starfvettvangur.

Í öðru lagi tel ég miklvægt að búin verði til áætlun hvernig heilbrigðiskerfiið og félagsþjónustukerfið ætla að mæta fjölgun aldraðra á næstu árum og áratugum. Hvernig á að skipuleggja þjónustuna, hvernig á að veita hana, hverjir eiga að veita hana. Hver er þörfin fyrir hjúkrunarrými, heimaþjónustu, félagslega liðveislu, dagvist, hvíldarinnlagnir, endurhæfingu o.s.frv. Gera þarf aðgerðaráætlanir um uppbyggingu þessarar þjónustu og fjármögnun hennar. Mikilvægt era ð gera fólki kleift sem sinnir umönnun og hjúkrun aldraðra að hafa sveigjanleika í starfi. Þá verður auðveldara að fá skólafólk og heilbrigðisnema til starfa samhliða námi og það getur tekið töluvert álag af kerfinu.

Í þriðja lagi þurfum við að ákveða hvernig við viljum að heilbrigðiskerfið þróist. Hingað til hefur ekki verið tekin meðvituð pólitísk ákvörðun um hvort það eigi að einkavæða það í ríkara mæli. Ég skal viðurkenna að ég tilheyri þeim meginþorra þjóðarinnar sem ekki vil frekari einkavæðingu kerfisins  en látum það liggja á milli hluta. Taka þarf ákvörðun um hvert skal stefnt. Á síðustu árum hafa hlutar kerfisins einkavæðst án þess að um það hafi verið tekin ákvörðun. Á meðan að skorið hefur verið niður á t.d. Landspítala og hjúkrunarheimilum (sem eru jú fæst opinber) hafa t.d. sjálfstætt starfandi sérfræðilæknar ekki verið með sambærilegar niðurskurðarkröfur og haft frjálsari hendur með gjaldtöku. Hlutar af heilbrigðiskerfinu eru því mun sjálfstæðari gagnvart fjárveitingarvaldinu en aðrir og hafa þar að auki hærri hlutfallsleg framlög til tækjakaupa en opinberakerfið. Ef stjórnvöld taka ekki fulla stjórn á heilbrigðiskerfinu mun það leiða til sóunar á fjármunum sem fara inn í það sem væri hægt að nýta betur, m.a. til að bæta kjör starfsfólks. Verkfall lækna þarf m.a. að skoða í þessu ljósi. Þetta er viðkvæm umræða og ég vil taka það fram að ég met mikils starf sjálfstætt starfandi sérfræðinga en er að benda á að við búum við tvöfalt kerfi  þróast að hluta til án þess að stefnumörkun stjórnvalda liggi fyrir.

Og talandi um kjör starfsfólks. Auðvitað er ekki hægt að tala um möguleika til mönnunar í heilbrigðiskerfinu án þess að ræða launakjör starfsfólks. Heilbrigðisstarfsfólk er mjög eftirsótt vinnuafl sem á mjög auðvelt með að sækja sér vinnu milli landa. Og við hin getum alls ekki verið án þeirra. Við munum einnig þurfa fleirir heilbrigðisstarfsmenn hlutfallslega í framtíðinni vegna hækkandi aldurs. Ég nálgaðist upplýsingar um fjölda heilbrigðisstarfsmanna á vef Hagstofunnar og þar kemur fram að hjúkrunarfræðingum og sjúkraliðum per íbúa hefur fjölgað en fjöldi lækna stendur í stað. Á tímabilinu 2002 til 2012. Það hlýtur að vera eðlileg þróun að hjúkrunarfólki og sjúkraliðum fjölgi per íbúa með hækkandi aldri og læknum þarf einnig að fjölga til lengri tíma litið. Með áætlun um þörf heilbrigðiskerfisins fyrir starfsfólk, húsnæði og tækjabúnað drögum við fram kostnaðinn og þar með útgjaldaþörf í framtíðinni ekki síst með tilliti til launaliðarins. Þá þurfum við að ákveða hvernig við mætum þeim kostnaði. Þegar fólk velur sér starfvettvang skipta launin máli. En álag, starfsumhverfi og starfsaðstæður skipta einnig miklu máli. Allir þessir þættir verða að stuðla að því að heilbrigðiskerfið veiti sem besta þjónustu og laði til sín starfsfólk.

Ég er sem sagt ekki með neitt patent svar og ég get ekki lofað ykkur 12 milljörðum strax. En ég lofa ykkur góðu samstarfi um sameiginlegt hagsmunamál okkar allra, mönnun í heilbrigðisþjónustu.