Vaxandi vantraust á stjórnmálaflokkum og stjórnmálakerfinu er mikið áhyggjuefni hér á landi sem annars staðar. Fólk situr uppi með þá tilfinningu að stjórnmálin snúist öðru fremur um að tryggja sérhagsmuni háværra, valdamikilla og auðugra hópa samfélagsins en ekki hagsmuni hins almenna borgara. Heilbrigðismál eru hér ekki undanskilin, því miður.

Stuðningur við opinbert kerfi
Heilbrigðiskerfið er ein af meginstoðum hvers samfélags. Á Íslandi vill yfirgnæfandi meirihluti fólks (81,1%) að heilbrigðisþjónusta sé fyrst og fremst rekin af hinu opinbera og enn fleiri að fjárveitingar til kerfisins verði auknar. Þetta eru rökréttar áherslur enda má auðveldlega sýna fram á að aukin einkaframkvæmd leiði í raun til einkavæðingar. Hér á landi höfum við gott dæmi um þetta. Ríkið hefur gert samninga við ýmsa sérgreinalækna í einkarekstri. Þegar ekki náðist að endurnýja samningana var ríkið í raun orðið háð þjónustu einkarekinnar heilbrigðisþjónustu og læknarnir gátu hækkað gjaldskrár sínar einhliða og kostnaðarþátttaka sjúklinga jókst sem því nam. Ríkið missir stjórn á kerfinu, verður háð einkaaðilum vegna mikilvægrar þjónustu og kostnaður sjúklinganna eykst.

Þessi þróun veldur því að erfiðara verður fyrir hið opinbera að hafa áhrif á uppbyggingu og skipulag þjónustunnar. Í raun missir ríkisvaldið að einhverju leyti stjórn á fjárveitingum til kerfisins og á erfiðara með að stýra fjármunum þangað sem þörfin er brýnust.

Einkavæðing?
Ríkisstjórnarflokkarnir, Framsóknarflokkur og Sjálfstæðisflokkur, sem og Björt framtíð hafa lýst yfir áhuga á fjölbreyttari rekstrarformum í heilbrigðisþjónustu. Þessir flokkar verða að svara því hvort í því felist dulin skilaboð um einkavæðingu, þvert á vilja almennings. Stefna Samfylkingarinnar er skýr í þessum efnum: Við höfnum frekari einkavæðingu á velferðarþjónustu sem nú er í opinberum rekstri. Brýnustu verkefnin í heilbrigðisþjónustu næstu árin eru risavaxin. Við þurfum að efla og styrkja heilsugæsluna, endurnýja húsa- og tækjakost Landspítala og draga úr kostnaðarþátttöku sjúklinga vegna heilbrigðisþjónustu og lyfja.

 

Grein birtist fyrist á visir.is

http://www.visir.is/felagslegt-heilbrigdiskerfi/article/2014706139997