Ágæta samkoma

 

Ég vil byrja á því að þakka þann heiður sem mér er sýndur að fá að ávarpa þennan mikilvæga fund.

Um fátt er meira deilt á Íslandi en byggingu nýrra húsa. Nýjar byggingar Landspítala eru þar engin undantekning en staðsetning þeirra hefur verið þrætuepli sl. 15 ár. Ráðherra eftir ráðherra hefur yfirfarið ákvörðunina og staðfest niðurstöðuna. Þingið hefur sameinast um setningu löggjafar um nýjan Landspítala við Hringbraut og þingsályktun sem staðfesti afstöðuna árið 2014 var samþykkt samhljóða. Framkvæmdir eru hafnar. Það mátti ekki seinna vera enda erum við runnin út á tíma. Ég vil nota tækifærið og þakka heilbrigðisráðherra fyrir staðfestu hans við að tryggja framgang verkefnisins. Hann er með meiri hluta Alþingis á bak við sig í þessu verkefni.

En víkjum nú að kjarna málsins. Til hvers erum við að byggja þessi hús? Þau eiga að hýsa tvær mikilvægustu stofnanir landsins, Landspítala og heilbrigðisvísindasvið Háskóla Íslands. Mér þykir ákaflega vænt um þessar tvær stofnanir. Það er ekki bara vegna þess að á annari eignaðist ég börn, kvaddi ástvini og fékk aðra ástvini aftur heim við góða heilsu og að í hinni hafi ég fengið góða menntun og þjálfun í gagnrýnni hugsun. Mér þykir ákaflega vænt um þessar tvær stofnanir því þær eru lykilstofnanir í heilbrigðiskerfinu annarsvegar og menntakerfinu hins vegar. Allir landsmenn njóta með beinum eða óbeinum hætti þeirrar starfsemi sem þar fer fram. Saman mynda þær kjölfestu fyrir siðað samfélag á Íslandi.

Á fundinum í dag hefur verið rætt um mikilvægt samstarf þessara stofnana. Samstarfið felur m.a. í sér kennslu og þjálfun heilbrigðisstarfsfólks en í dag er aðstaða til kennslu og þjálfunar bágborin og kennsla heilbrigðisvísindasviðs fer fram á mörgum stöðum. Með nýjum byggingum sameinast kennslan á einn stað og öll aðstaða til starfsþjálfunar verður til fyrirmyndar.  Hvað vísindastarfið varðar þá eflist það til muna með betri starfsaðstöðu og sjúkrahúsið fær áfram að njóta nálægðar við aðrar vísindastofnanir í Vatnsmýrinni. Þegar Landspítali við Hringbraut verður fullbyggður eignumst við glæsilegt sjúkrahús þar sem öryggi sjúklinga verður betur tryggt, aðstæður starfsfólks verða því samboðnar og vinnustaðurinn verður eftirsóknarverður fyrir starfsfólk í fremstu röð.

Hlutverk okkar á Alþingi er að tryggja fjármagn til að áætlanir haldi.

Að lokum vil ég þakka Spítalanum okkar fyrir fundinn og eljuna sem samtökin sína með því að standa reglulega fyrir almennum umræðum og upplýsingagjöf um mikilvægi þess að nýjar byggingar Landspítala rísi sem fyrst.

Takk fyrir mig.